Húsleit gerð hjá Chalabi í Bagdad

Ahmad Chalabi, í blárri skyrtu, ávarpar mannfjölda í Nassiriya í …
Ahmad Chalabi, í blárri skyrtu, ávarpar mannfjölda í Nassiriya í Írak. AP

Bandarískir og íraskir hermenn réðust í morgun inn í höfuðstöðvar Ahmeds Chalabis, leiðtoga Íraska þjóðarráðsins, í Bagdad. Hermenn, sem gættu hússins í morgun segja að verið sé að leita að flóttamönnum. Chalabi situr í framkvæmdaráði Íraks en hefur að undanförnu beitt sér fyrir því að Bandaríkjamenn afhendi Írökum aukin völd og í viðtali við BBC í gær sagði hann að Írakar eigi að fá full yfirráð yfir olíulindum og mannvirkjum sem Bandaríkjamenn ráða nú.

Chalabi var lengi í náðinni hjá bandarískum stjórnvöldum og var talið að Bandaríkjamenn vildu gera hann að forseta í Írak. En samskiptin hafa versnað mjög á undanförnum mánuðum. Þannig hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að hætta leynilegum fjárstuðningi við Íraska þjóðarráðið og komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar sem hreyfingin veitti hafi verið gagnslausar, að sögn The New York Times.

Blaðið sagði að leyniþjónusta Bandaríkjahers hefði greitt Íraska þjóðarráðinu 335.000 dollara, andvirði 25 milljóna króna, á mánuði frá árinu 2002 en stuðningnum yrði hætt 30. júní þegar írösk bráðabirgðastjórn á að taka við völdunum í Írak. Alls nam stuðningurinn að minnsta kosti 27 milljónum dollara, tveimur milljörðum króna. Markmiðið var að hjálpa Íraska þjóðarráðinu að afla upplýsinga í Írak en bandarískir embættismenn, sem hafa skoðað þær ofan í kjölinn, hafa komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar sem voru veittar fyrir innrásina í Írak hafi verið gagnslausar, villandi eða spunnar upp, að sögn The New York Times.

Íraska þjóðarráðið neitar þessu og segir að of mikið hafi verið gert úr þætti hreyfingarinnar í öflun upplýsinga um vopnaeign Íraka fyrir stríðið. Hún hafi hins vegar veitt upplýsingar sem leitt hafi til handtöku 1.500 íraskra uppreisnarmanna, sem flestir hafi verið stuðningsmenn Saddams Husseins, fyrrverandi einræðisherra Íraks.

Dæmdur fyrir fjársvik

Íraska þjóðarráðið var ein af helstu írösku hreyfingunum sem börðust gegn stjórn Saddams Husseins og Chalabi tókst að halda nánum tengslum við bandarísk yfirvöld þótt hann væri eftirlýstur í Jórdaníu fyrir stórfelld fjársvik.

Jórdanskur dómstóll dæmdi Chalabi til 22 ára hegningarvinnu í réttarhöldum sem fóru fram að honum fjarstöddum árið 1992. Hann var ákærður fyrir að hafa dregið sér 4,4 milljarða króna úr banka sem hann stofnaði árið 1997 og varð gjaldþrota 1989.

Chalabi varð einn af þekktustu stjórnmálamönnunum úr röðum íraskra útlaga og hann var jafnvel talinn koma til greina í embætti forseta Íraks. Hann hefur þó alltaf neitað því að hann sækist eftir því að verða kjörinn forseti þegar lýðræði verður komið þar á.

mbl.is