Þýska þjóðþingið velur sér nýjan forseta

Gerhard Schröder, kanslari Þýskaland, ásamt Gesine Schwan.
Gerhard Schröder, kanslari Þýskaland, ásamt Gesine Schwan. AP

Fyrsta umferð í kosningum um nýjan forseta Þýskalands fer fram í þjóðþingi landsins í dag. Barátta um embættið er á milli Horst Köhler, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), og Gesine Schwan, sem er prófessor í stjórnmálafræði.

Um 1.205 fulltrúar taka sæti á sérstökum þingfundi þar sem greidd eru atkvæði um næsta forseta landsins. Kristilegir demókratar og frjálslyndir, sem hafa meirihluta á þingi, styðja við bakið á Köhler. Jafnaðarmenn vilja hins vegar að Schwan verði fyrsti kvenforseti landsins. Kristilegir demókratar eru sigurvissir og telja að úrslitin liggi fyrir eftir fyrstu umferð.

Köhler, sem er 61 árs og hefur stafað allan sinn feril í alþjóðlegum fjármálaheimi, er giftur tveggja barna faðir. Schwan, sem er einnig 61 árs, stjórnar Viadrina European-háskólanum. Hún er ekkja og tveggja barna móðir.

Embætti forseta landsins er að mestu leyti valdalaust í pólitískum skilningi, en hann er opinber fulltrúi 82 milljóna Þjóðverja og fær tækifæri til þess að eiga samskipti við leiðtoga heimsins. Nýr forseti, sem tekur við völdum hinn 1. júlí, tekur við hlutverki Jóhannesar Rau, sem gegndi embætti sínu í fimm ár.

mbl.is