Clinton kennir Arafat um að ekki hafi náðst friður

Bill Clinton hefur nóg að gera við að kynna nýútkomna …
Bill Clinton hefur nóg að gera við að kynna nýútkomna bók sína. Hér sést hans ásamt dóttur sinni Chelsea, t.v. og eiginkonu sinni, Hillary Rodham. AP

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skellir skuldinni alfarið á Yasser Arafat, forseta heimastjórnar Palestínu, um að ekki hafi náðst friður í Miðausturlöndum og segir Arafat hafa gert gríðarleg mistök þegar hann hafnaði skilmálum friðarsamkomulags fyrir fjórum árum þegar báðir aðilar voru mjög nærri samkomulagi.

Í endurminningum sínum, sem gefnar voru út í gær, segir Clinton frá því hvernig Arafat virtist á stundum ringlaður og illa upplýstur á mikilvægum fundi þeirra í Camp David í júlí 2000 í forsetatíð Clintons. Viðræðunum lauk með því að Arafat sagði nei.

Clinton lýsir því hvernig hann var ýmist sáttasemjari eða slökkviliðsmaður í tilraunum sínum til að binda enda á vantraust milli Palestínumanna og Ísraela og reyna að koma á friðarsamkomulagi.

Clinton segir að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraela, sem var utanríkisráðherra þegar hann og Clinton hittust fyrst, hafi ekki verið laus við samúð með málstað Palestínumanna þó svo hann hafi hafnað því að gefa eftir landssvæði. En Arafat hafi hins vegar verið óhagganlegur. Ehud Barak var forsætisráðherra Ísraels á þessum tíma.

„Ísraelska ríkisstjórnin hafði sagt að til að ná friði þá myndi ríki Palestínu ná til 97% af Vesturbakkanum og alls Gaza-svæðisins, þar sem landtökubyggðir Ísraela voru einnig. Boltinn var hjá Arafat. Ég varaði Arafat við því að hann einn og sér væri að kjósa Sharon og að hann þyrfti að taka afleiðingunum af því,“ segir Clinton.

mbl.is