Félögum í breska Verkamannaflokknum hefur fækkað verulega í stjórnartíð Blair

Tony Blair, t.v. ræðir við Bush Bandaríkjaforseta á nýliðinni ráðstefnu …
Tony Blair, t.v. ræðir við Bush Bandaríkjaforseta á nýliðinni ráðstefnu leiðtoga NATO-ríkja. Stuðningur Blair við Íraksstríðið er afar umdeildur í Bretlandi. AP

Félögum í flokki Tony Blair, breska Verkamannaflokknum, fækkaði í fyrra og eru meðlimir flokksins nú einungis rúmur helmingur þess fjölda sem átti aðild að honum þegar Blair komst til valda árið 1997, samkvæmt opinberum tölum. Miklar deilur hafa staðið að undanförnu um stuðning Blairs við stríðið í Írak og um niðurskurð á opinberri þjónustu og hafa þær vafalaust haft áhrif á fjölda flokksfélaga.

Í lok árs 2003 voru félagar flokksins um 215.000 talsins og hafði þá fækkað um 30.000 frá fyrra ári, að því er flokkurinn hefur tilkynnt. Þegar Blair tók við forystu í Verkamannaflokknum árið 1997 voru félagar í honum hins vegar um 407.000 talsins. Talið er að flokksfélagar hafi ekki verið færri frá því að Ramsay MacDonald, fyrsti forsætisráðherra Verkamannaflokksins, komst í forsvar fyrir hann fyrir meira en 70 árum síðan.

Talsmaður flokksins benti þó á að ekki væri hægt að gera samanburð í þessum efnum með því að vitna til sögunnar. Ekki hafi verið haldin fullnægjandi félagaskrá yfir flokksfélaga fyrr en undir lok 20. aldarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert