Fyrirburar eiga erfiðara með nám, samkvæmt dönskum rannsóknum

Rannsókn sem gerð var í Danmörku á fyrirburum sýnir að greindarvísitala þeirra er í sumum tilfellum lægri en annarra barna og þeir eiga oft erfitt með að læra að reikna og skrifa. Rannsóknin var gerð á 252 fyrirburum og er sú stærsta sem gerð hefur verið í Danmörku hingað til, en niðurstöður hennar sýndu að helmingur fyrirbura var eftir á í vitsmunalegum þroska, segir í frétt Politiken.

„Lægri greindarvísitala barnanna gerir það að verkum að það getur tekið þau lengri tíma að skilja ákveðna hluti og eins geta þau átt erfiðara með talnaskilning og uppröðun orða, sem gerir þeim erfiðara að ná tilsettum markmiðum,“ segir Barbara Hoff, doktor við sálfræðideild Kaupmannahafnarháskóla, sem vann að rannsókninni ásamt lækninum Bo Mølholm Hansen.

Sýndi það sig einnig í könnuninni að 80% fyrirbura stæðu jafnfætis jafnöldrum sínum allt þar til skólaganga þeirra hæfist. Alþjóðleg rannsókn sem gerð var á tæplega 500 fyrirburum í Hollandi, Bandaríkjunum, Kanada og Þýskalandi, á síðasta ári, sýndi að helmingur barnanna þarfnaðist sérkennslu, eða voru ári á eftir í skóla.

Þá hafa indverskar rannsóknir sýnt að börn fædd fyrir tímann stóðu sig almennt verr en jafnaldrar þeirra í reikningi og lestri og þeir áttu einnig erfitt með að umgangast önnur börn. Þá sýndu breskar rannsóknir að munurinn milli barnanna og jafnaldra þeirra ykist eftir því sem börnin yrðu eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert