Sýknaður af ákærðu fyrir að myrða blaðakonu í Íran

Dómstóll í Teheran, höfuðborg Írans, hefur sýknað sakborning sem ákærður var fyrir morð á íransk-kanadískum blaðaljósmyndara. Shirin Ebadi, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári, var lögmaður móður ljósmyndarans og sagði hún að málsmeðferðin hefði verið gölluð. Hótaði hún því að fara með málið til alþjóðastofnana ef íranskir dómstólar gerðu ekki skyldu sína og fullnægðu réttlætinu.

Zahra Kazemi lést á meðan hún sat í varðhaldi og var íranskur leyniþjónustumaður ákærður fyrir að hafa valdið dauða hennar. Opinbera fréttastofan IRNA segir að leyniþjónustumaðurinn hafi verið sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum. Talið er að þessi niðurstaða muni spilla samskiptum Írans og Kanada.

Kazemi var 54 ára gömul og hafði tvöfalt ríkisfang. Hún lést af völdum heilablæðingar í júlí á síðasta ári og orsakaðist blæðingin af höggi sem hún fékk þegar verið var að yfirheyra hana en hún var handtekin þegar hún var að taka myndir utan við alræmt fangelsi í Teheran.

mbl.is