Vill skipta á áritun Clintons og sæti á flokksþingi demókrata

John Edwards, varaforsetaefni demókrata, mun flytja ræðu á flokksþingi þeirra …
John Edwards, varaforsetaefni demókrata, mun flytja ræðu á flokksþingi þeirra í Boston í kvöld. AP

Bandaríkjamaður að nafni John Wertman, sem þráir nú heitast að berja John Edwards, varaforsetaefni demókrata augum á flokksþinginu í Boston í dag, hefur boðið hverjum sem vill láta honum í té sæti á þinginu bók með eiginhandaráritun Bill Clintons, fyrrum Bandaríkjaforseta. „Þær seljast á um 250 dollara á Netinu,“ sagði Wertman og hélt á lofti áritaðri ævisögu Bill Clintons, My Life, sem kom út á dögunum.

„Mig langar reglulega til þess að komast í fundarsalinn á flokksþinginu,“ sagði hann. Wertman sem er 27 ára og er í Boston á vegum samtaka bandarískra landfræðinga sagðist hafa beðið í biðröð í þrjár klukkustundir til þess að hitta Clinton og fá áritun hans á ævisöguna.

Nú er hann tilbúinn að láta hana frá sér, fái hann sæti í fundarsal flokksþings demókrata. „Sumir fulltrúarnir skiptu á sætum í salnum og aðgöngumiðum í teiti, svo ég hugsaði, hvers vegna ekki?“ sagði hann.

Spurður um hvort hann treysti sér til þess að sjá á eftir hinni árituðu ævisögu Clintons sagði hann: „Ekkert vandamál. Ég á aðra“.

mbl.is