Japönsk yfirvöld höfnuðu áfrýjun Bobby Fischer

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. mbl.is

Japönsk stjórnvöld höfnuðu í dag áfrýjun Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, vegna brottvísunar hans frá landinu og einnig beiðni hans um landvistarleyfi vegna þess að hann væri pólitískur flóttamaður.

„Japanska dómsmálaráðuneytið hafnaði kröfu Fischers um hæli sem pólitískur flóttamaður á þeirri forsendu að ákæran á hendur honum í Bandaríkjunum sé ekki af pólitískum meiði,“ sagði John Bosnitch, formaður nefndar sem berst fyrir frelsun Fischers, í yfirlýsingu. Þá hefði Daizo Nozawa dómsmálaráðherra Japans formlega hafnað áfrýjun Fischers til innflytjendaskrifstofu landsins vegna brottvísunar úr landi.

Bobby Fischer, sem hefur verið í haldi japanskra yfirvalda síðan 13. júlí sl., er eftirlýstur af bandarískum yfirvöldum vegna þátttöku hans í skákmóti í fyrrum Júgóslavíu, sem var í alþjóðlegu viðskiptabanni á þeim tíma, árið 1992 til þess að minnast þess að tuttugu ár voru frá svokölluðu „Einvígi aldarinnar“ í Reykjavík þegar Fischer sigraði þáverandi heimsmeistara í skák, Sovétmanninn Boris Spasskí. Fischer gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

mbl.is