Clinton áritaði með vinstri hendi og heilsaði með hægri

Bill Clinton áritar bækur í Eason bókabúðinni í Dublin.
Bill Clinton áritar bækur í Eason bókabúðinni í Dublin. AP

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, áritaði rúmlega 1500 bækur í bókaverslun í Dublin í dag. Clinton var í versluninni í þrjá tíma, talsvert lengur en áætlað var, en þá ákváðu öryggisverðir að nóg væri komið og urðu nokkur hundruð manns, sem enn biðu í röð utan við verslunina eftir að fá að hitta Clinton, frá að hverfa.

Clinton reyndi að afgreiða eins marga og hann mögulega gat og heilsaði fólki stundum með hægri hendi á meðan hann áritaði bækur með þeirri vinstri.

Martin Black, framkvæmdastóri Eason bókaverslunarinnar, sagði að þetta hefði verið mest spennandi bókaáritun í sögu Írlands.

„Hann er tákn fyrir okkar tíma. Enginn annar stjórnmálamaður kemst nálægt honum," sagði Vicky Jolly, sem ók í gærkvöldi frá Cork, um 5 tíma ökuferð, og beið í röð utan við bókaverslunina í 13 stundir. Hún spurði Clinton hvernig Seamus, hundinum hans liði. „Ágætlega," sagði Clinton og virtist hissa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert