ESB lýsir yfir sigri á Ólympíuleikunum

Ólympíuleikunum í Aþenu var slitið við hátíðlega athöfn í gærkvöldi.
Ólympíuleikunum í Aþenu var slitið við hátíðlega athöfn í gærkvöldi. AP

Fulltrúi Evrópusambandsins, ESB, lýsti í dag yfir sigri sambanbsins á Ólympíuleikunum, en hann benti á að sameiginlega hefðu íþróttamenn hinna 25 aðildarríkja ESB unnið til mun fleiri verðlauna en Bandaríkin, sigursælasta þjóð leikanna. „Evrópusambandið sópaði að sér verðlaunum á Ólympíuleikunum,“ sagði Reijo Kemppinen, talsmaður ESB.

Ríki ESB unnu alls 286 verðlaunapeninga á leikunum og þar af voru 83 gullverðlaun. Bandaríkin unnu alls 103 verðlaun, en þar af voru 35 gull, að því er Kemppinen benti á. Hann viðurkenndi að þrátt fyrir þessar tölur, væru engin áform um að ESB-ríki kepptu undir merki sambandsins í framtíðinni, í stað þess að mæta hvert í sínu lagi á ÓL.

Kemppinen benti á að Þjóðverjar hefðu lagt mest til „hins frábæra árangurs“, en þeir hlutu 14 gullverðlaun á leikunum í Aþenu. 11 gull féllu Frökkum í skaut og þá unnu Ítalir til 10 verðlauna.

Fái Rúmenía og Búlgaría aðild að ESB árið 2007, eins og búist er við, gæti verðlaunum ESB á ÓL í Peking í Kína ári siðar fjölgað enn frá því sem var á leikunum í ár. Um er að ræða miklar íþróttaþjóðir, en svo dæmi sé nefnt eru Rúmenar afar sterkir í keppni í fimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert