Kínaforseti segir að breytingar í lýðræðisátt væru blindgata

Hu forseti ræðir við nemendur í barnaskóla í Peking í ...
Hu forseti ræðir við nemendur í barnaskóla í Peking í síðustu viku. AP
Hu Jintao, forseti Kína, sagði í ræðu í dag að hann væri andvígur því að vestrænir stjórnkerfishættir yrðu innleiddir í Kína. Slíkt væri blindgata. Jafnfram fór hann ófögrum orðum um spillta embættismenn. Á morgun hefst árlegur fundur miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins í Peking. Hu hefur verið forseti síðan 2002 og leitast nú við að auka trúverðugleika flokksins með því að bæta tengslin við almenning og ráðast gegn spillingu. Fréttaskýrendur segja Hu aftur á móti ekki sýna neinn áhuga á víðtækari stjórnmálaumbótum.

Á fréttavef BBC segir að það sem mesta athygli muni vekja á miðstjórnarfundinum, sem stendur til sunnudags, sé hvort Jiang Zemin, fyrrverandi forseti, muni segja af sér eina embættinu sem hann enn gegnir, formennsku í herráðinu, og láta Hu taka við því. Fari svo hafi Hu tekist að festa sig endanlega í sessi sem æðsti leiðtogi Kína.

Hu sagði að núverandi kerfi í Kína væri vænlegt og betri en önnur. Engir vestrænir kerfishættir, eins og til dæmis aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, eða fjölflokkakerfi, yrðu innleiddir í Kína.

„Við munum aldrei apa í blindni eftir stjórnmálakerfinu í öðrum löndum,“ sagði Hu. „Sagan sýnir að það er blindgata fyrir Kínverja að taka hugsunarlaust upp vestræna stjórnkerfishætti.“

mbl.is
HEIMA ER BEZT
Heima er bezt tímarit Þjóðlegt og fróðlegt Tryggðu þér áskrift www.heimaerbezt.n...
Sumarhús - gestahús - breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Honda Jass 2013
Til sölu Honda Jass árgerð 2013 ekinn 70.000 sjálfsk Góður og vel með farinn bil...