ÖSE gagnrýnir Rússa fyrir upplýsingar um Beslan

Tveir Ossetíumenn lesa dagblaðafregnir af harmleiknum í Beslan.
Tveir Ossetíumenn lesa dagblaðafregnir af harmleiknum í Beslan. AP

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, gagnrýnir rússnesk stjórnvöld harðlega fyrir að reyna að koma í veg fyrir að fjölmiðlar flyttu fréttir af gíslatökunni í Beslan í Norður-Ossetíu, þar sem 330 manns, aðallega börn, létu lífið.

Miklos Haraszti, talsmaður ÖSE, sagði að dæmi hefðu verið um að fréttamenn hefðu verið settir í varðhald og þeim hótað og stjórnvöld hefðu ekki veitt trúverðugar upplýsingar fljótt og vel.

Stjórnvöld í Rússlandi fullyrtu lengi vel að tala látinna væri mun lægri en raunin varð og opinberar tölur voru ítrekað nefndar í fréttum helstu sjónvarpsstöðva í Rússlandi.

Haraszti sagði að þrefaldur trúnaðarbrestur hefði orðið. Í fyrsta lagi milli stjórnvalda og fjölmiðla, í öðru lagi milli fjölmiðla og þjóðarinnar og í þriðja lagi milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar. Þetta væri mikið áfall fyrir lýðræðisþróunina.

Rússneskir og erlendir blaðamenn sem voru í Beslan og reyndu að afla upplýsinga, sættu oft ýmsum hindrunum og þeir voru jafnvel barðir og byrluð lyf, að því er kemur fram í skýrslu ÖSE.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert