Basajev lýsir ábyrgð á gíslatöku í Beslan

Logandi kerti, kransar og syrgjandi fólk í leikfimisal barnaskólans í …
Logandi kerti, kransar og syrgjandi fólk í leikfimisal barnaskólans í Beslan á dögunum. AP

Téténski uppreisnarleiðtoginn Shamil Basajev hefur lýst ábyrgð á gíslatöku í barnaskóla í Beslan í suðurhluta Rússlands á dögunum að því er fram kemur í bréfi sem birt er á vefsíðu uppreisnarmanna í dag. Að minnsta kosti 339 manns, þar af um helmingurinn börn, létust þegar gíslatakan hlaut blóðugan endi fyrir tveimur vikum. Basajev lýsti einnig ábyrgð á sjálfsvígssprengju í Moskvu sem banaði 10 við lestarstöð 31. ágúst s.l. og á hryðjuverkum í tveimur rússneskum farþegavélum sem fórust viku fyrr og urðu 90 manns að bana.

Í yfirlýsingu á vefsíðunni segir að uppreisnarmenn undir stjórn Basajev hafi „heppnast að framkvæma allnokkrar hernaðaraðgerðar...“ þar á meðal „aðgerðina í bænum Beslan.“ Bréfið er undirritað af Basajev birt á síðunni kavkazcenter.com.

Sannleiksgildi yfirlýsingarinnar hefur enn ekki fengist staðfest, en téténskir uppreisnarmenn hafa oft birt yfirlýsingar á síðunni.

Basajev sagði jafnframt að rússneskar sérsveitir hefðu átt upptökin að bardögunum sem brutust út í skólanum milli þeirra og hryðjuverkamannanna fyrir tveimur vikum. Sagði hann að gíslatökumennirnir hefðu verið reiðubúnir að sleppa gíslunum, sem voru fleiri en 1.000, ef kröfum þeirra um brotthvarf Rússa frá Tétsníu og um að stríðinu sem þar hefur staðið yfir í fimm ár, yrði hætt.

Basajev sagðist hafa sent bréf til Vladimírs Pútín, Rússlandsforseta. Þar hefði hann boðið Rússum að hryðjuverkaárásum yrði hætt fengju Téténar sjálfstæði.

Þá sagði hann að 33 uppreisnarmenn, þar af tvær konur, hefðu tekið þátt í gíslatökunni í Beslan. Hún hefði kostað um 8.000 evrur, en það samsvarar um 700.000 íslenskar krónur. „Við áttum ekki næga peninga til þess að framkvæma þetta í Moskvu,“ sagði hann. Í hópnum voru 14 Téténar, 9 Ingúsetíumenn, 3 af rússneskum uppruna, Arabar, 2 Ossetar og 3 sem ekki voru af rússnesku bergi brotnir að því er Basajev sagði. Hann hafnaði því jafnframt að hann og menn hans hefðu tengsl við al-Qaeda.

mbl.is