Powell ver brottvísun Cat Stevens frá Bandaríkjunum

Yusuf Islam, eða Cat Stevens, við komuna til London í …
Yusuf Islam, eða Cat Stevens, við komuna til London í dag. AP

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varði í dag þá ákvörðun bandarískra stjórnvalda að meina breska söngvaranum Cat Stevens, sem nú heitir Yusuf Islam, að koma til Bandaríkjanna. „Við sökum hann ekki um neitt,“ sagði Powell við blaðamenn í New York í dag.

„VIð höfum ekkert gegn honum sem gefur ástæðu til málsóknar hér, og heldur ekkert sem hugsanlega færi fyrir dóm í Bretlandi, ég er viss um það,“ sagði Powell. „En við höfum notast við ákveðnar stafsreglur til þess að vita hver fer inn í land okkar, til að fá vitneskju um bakgrunn þeirra og áhugamál svo við getum metið hvort við teljum rétt að þeir komi hingað,“ sagði Powell einnig.

„Um Cat Stevens er það að segja ...heimavarnarráðuneyti og leyniþjónustur fundu upplýsingar um atferli hans sem gerðu að verkum að þeim þótti nauðsynlegt, lögum okkar samkvæmt, að setja hann á varúðarlista og meina honum þess vegna að koma til Bandaríkjanna,“ sagði Powell.

Hópar múslima beggja vegna Atlantshafs hafa fordæmt meðferðina á Islam. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, ræddi málið jafnframt við Powell á allsherjarþingi SÞ í New York.

Islam, sem er 57 ára, var á ferð til Bandaríkjanna með United Airlines flugfélaginu á þriðjudag, þegar vélinni var flogið til Bangor í Maine. Þar var hann fjarlægður úr vélinni og flogið með hann til London.

mbl.is