Enn á eftir að bera kennsl á 73 lík eftir hryðjuverk í Beslan

Leikfimisalur skólans Í Beslan nokkrum dögum eftir árásirnar..
Leikfimisalur skólans Í Beslan nokkrum dögum eftir árásirnar.. AP

Rússneskir saksóknarar greindu frá því í dag að enn ætti eftir að bera kennsl á 73 lík sem fundust eftir að gíslatöku um barnaskóla í Beslan lauk með blóðsúthellingum fyrir þremur vikum. DNA-próf hafa verið gerð á líkunum og er vinna hafin við að reyna að bera kennsl á þau, að því er Interfax fréttastofan greindi frá.

Að minnsta kosti 339 létust í gíslatökunni, snemma í þessum mánuði. Flestir létust eftir að átök brutust út á þriðja degi gíslatökunnar.

Haft var eftir Nikolai Shepel, talsmanni aðstoðarsaksóknara í málinu, að DNA greining hefði gert að verkum að hægt var að bera kennsl á lík drengs sem fæddur var árið 1992 og eins lík 15 ára drengs sem talinn er hafa verið í hópi gíslatökumannanna.

Yfirvöld hafa hingað til haldið því fram að þeir hafi verið 31 talsins, allir nema einn hefðu látið lífið og sá sem lifði af hefði verið handtekinn.

Flest hinna 73 líka sem ekki hafa verið borin kennsl á, eru talin tilheyra gíslum sem ekki tókst að flýja úr leikfimisal skólans þegar þak hans hrundi við upphaf átakanna. Gíslunum hafði verið haldið í leikfimisal skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert