Clinton kom fram á kosningafundi með Kerry

John Kerry og Bill Clinton á kosningafundinum í Pennsylvaníu í …
John Kerry og Bill Clinton á kosningafundinum í Pennsylvaníu í dag. AP

Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, kom fram á kosningafundi með John Kerry, forsetaefni demókrata, í dag en Clinton er að jafna sig eftir mikla hjartaaðgerð sem hann gekkst undir í byrjun september.

Clinton kom fram á fundi með Kerry í Pennsylvaníu og er þetta í fyrsta skipti sem hann kemur fram opinberlega eftir aðgerðina. „Ég hef stundum verið kallaður endurkomu-strákurinn," sagði Clonton. „Eftir átta daga ætlar John Kerry að gera Bandaríkin að endurkomu-landinu."

George W. Bush, forseti, hélt í dag kosningafund í Colorado. Skoðanakannanir benda til þess að afar mjótt sé á mununum milli þeirra Bush og Kerrys þótt Bush hafi tölfræðilegt forskot á landsvísu. Vegna kjörmannakerfisins í landinu er staða mála hins vegar afar óljós.

mbl.is