Læknar óttast að Arafat sé með hvítblæði

Hópur manna veifar til Arafats þegar hann fer um borð …
Hópur manna veifar til Arafats þegar hann fer um borð í þyrlu við höfuðstöðvar sínar í Ramallah í morgun. AP

Læknar telja að Yasser Arafat Palestínuleiðtogi kunni að vera með hvítblæði, að því er fram kemur í frétt Reuters. Hann er nú í franskri forsetaflugvél á leiðinni til Parísar, þar sem hann verður lagður inn á hersjúkrahús til meðferðar. Þyrla flutti hann frá Ramallah til Jórdaníu í morgun og var það í fyrsta skipti í tvö og hálft ár sem Arafat fékk að yfirgefa Vesturbakkann.

Reuters hefur eftir aðstoðarmönnum Arafats að hann hafi sagt „Ef Guð lofar sný ég aftur,“ áður en hann var fluttur á sjúkrabörum upp í þotuna í morgun.

„Með blóði okkar og sálu munum við styðja þig," hrópaði mannfjöldinn þegar þyrlan fór frá Ramallah með Arafat og Suha konu hans innanborðs. Suha, sem er 41 árs gömul, býr í París en kom í gær til Ramallah vegna veikinda Arafats.

Hópur háttsettra embættismanna Palestínumanna fór á eftir Arafat í annarri þyrlu en heimildarmenn segja að bæði Ahmed Qureia, forsætisráðherra, og Mahmood Abbas, fyrrum forsætisráðherra, hafi orðið eftir til að taka við stjórn heimastjórnarinnar.

Yasser Arafat.
Yasser Arafat. AP
mbl.is