Bush berst á ný fyrir stjórnarskrárbreytingu sem banni hjónabönd samkynhneigðra

Samkynhneigðir í röð við ráðhúsið í Boston í Massachusetts eftir …
Samkynhneigðir í röð við ráðhúsið í Boston í Massachusetts eftir að hjónabönd samkynhneigðra voru leyfð þar í vor. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, mun hefja vinnu á ný á öðru kjörtímabili sínu sem forseti Bandaríkjanna, við að láta breyta stjórnarskrá landsins á þá lund að að hjónabönd samkynhneigðra verði bönnuð, að því er Reuters skýrir frá.

Einn helsti aðstoðarmaður Bush sagði að forsetinn teldi breytinguna nauðsynlega svo stuðla mætti að „siðsömu“ samfélagi.

Bush fór fram á það við Bandaríkjaþing í fyrra, að stjórnarskránni yrði breytt, en hugmyndin hlaut ekki brautargengi. Talið er að afstaða Bush til hjónabanda samkynhneigðra hafi orðið kristnum íhaldsmönnum hvatning til þess að taka þátt í forsetakosningunum.

Ekki er talið að sú breyting sem Bush vill ná fram verði samþykkt. Engu að síður þykir Bush verðlauna stuðningsmenn sína úr röðum kristinna íhaldsmanna með því að fara fram á að stjórnarskránni verði breytt.

Atkvæði voru greidd um rétt samkynhneigðra til þess að ganga í hjónaband í 11 ríkjum, meðfram forsetakosningunum síðastliðinn þriðjudag. Í öllum ríkjunum greiddi meirihluti fólks atkvæði með því að láta banna hjónabönd samkynhneigðra.

mbl.is
Loka