Bush hyggst þakka Kanadamönnum veittan stuðning

George W. Bush Bandaríkjaforseti hyggst þakka Kanadamönnum fyrir þá aðstoð sem þeir veittu Bandaríkjamönnum í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september árið 2001 í heimsókn sinni til Halifax síðar í dag samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef CNN. Rúmlega 200 flugvélum á leið til Bandaríkjanna var snúið til Kanada í kjölfar árásanna og mörg þúsund Bandaríkjamenn voru strandaglópar í Kanada uns flugumferð var leyfð á ný í Bandaríkjunum.

Fjölmargir Kanadamenn buðu fólkinu gistingu á heimilum sínum en öðrum mislíkaði hins vegar að flugvélum, sem talið var að gætu verið hættulegar, skyldi snúið til Kanada.

Bush vísaði því á bug í ræðu sem hann hélt í Ottawa í gær að samskipti ríkjanna hefðu versnað að undanförnu. Hann sagðist þó skilja gremju Kanadamanna vegna banns Bandaríkjastjórnar við innflutningi kanadískra nautgripa og að margir Kanadamenn hefðu verið mótfallnir innrásinni í Írak en sagðist einfaldlega vera "maður sem gerði það sem hann teldi rétt og að hann myndi halda áfram að gera það".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert