Bók um Jesúm Krist bönnuð í Grikklandi

Dómstóll í Aþenu hefur bannað teiknimyndabókina „Líf Jesú“ þar sem Jesú Kristur er sýndur sem misheppnaður fíkniefnaneytandi og kraftaverkin gerast af heppni. Höfundur bókarinnar, Austurríkismaðurinn Gerhard Haderer, mætti ekki fyrir dóm þegar dómur var kveðinn upp og fékk sex mánaða fangelsisdóm sem byggði á að bókin móðgaði trúnna. Hefði Haderer mætt í réttinn stóð honum til boða að losna undan refsingu með því að greiða sekt.

Útgefendur bókarinnar og fjórar bókabúðir sem hafa selt bókina voru sýknaðar af kærum en rétturinn ákvað að staðfesta bann við bókinni sem var tekin úr bókabúðum af lögreglu í febrúar 2003 samkvæmt skipunum ákæruvaldsins.

Fyrir Hæstarétti Grikklands liggur nú mál um upptöku lögreglu á bókinni en niðurstöður dómsins eru ekki komnar.

„Verði banninu ekki aflétt, munum við hugleiða hvort málinu verði áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ sagði lögfræðingur Haderers, Minas Mihailovic.

Alþjóðasamband bókaútgefanda gagnrýndi harðlega að bókin hafi verið gerð upptæk en því var hins vegar fagnað af grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Bókin hefur verið gefin út í Þýskalandi, Frakklandi, Suður-Kóreu, Tékklandi, Portúgal, Ungverjalandi og heimalandi Haderers, Austurríki, þar sem hún seldist í 80 þúsund eintökum.

Fyrir fimm árum var erótísk skáldsaga frá Grikklandi gerð upptæk í landinu eftir þrýsting frá kirkjunni sem taldi bókina vera guðlast.

Hins vegar eru andgyðinglegar bækur fáanlegar í Grikklandi en þær eru víða bannaðar í Evrópulöndum.

mbl.is