Dæmdur fyrir að gera grín að páfa

Jerzy Urban í réttarsalnum.
Jerzy Urban í réttarsalnum. AP

Einn af þekktustu fréttablaðaritsjórum Póllands hefur verið dæmdur til að greiða sekt fyrir að gera grín að Jóhannesi Páli Páfa II. Dómstóll í Varsjá sagði Jerzy Urban sekan um að hafa móðgað þjóðhöfðingja með því að hafa skrifað háðuglega grein um páfa sem birtist kvöldið áður en páfi kom í heimsókn til Póllands árið 2002. Þarf hann að greiða sem nemur rúmlega 400.000 íslenskum krónum í sekt, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Urban hélt því statt og stöðugt fram að hann hefði nýtt sér rétt sinn til að tjá sig. Fyrir réttarhöldin héldu samtök blaðamanna sem nefnast Fréttamenn án landamæra, því fram að ef hann yrði sakfelldur yrði það „hættulegt fordæmi“ fyrir land í Evrópusambandinu.

Urban var talsmaður síðustu stjórnar kommúnista í Póllandi en nú er þessi 71 ára gamli maður ritstjóri vikufréttablaðsins Nie eða Nei.

Í grein hans sem bar yfirskriftina Gangandi sjálfspíningarhvöt, talaði Urban um hversu veikburða páfinn væri orðinn og kallaði hann „Brezhnev Vatikansins“ og “getulausan gamlan mann“. Fjöldi kvartana barst eftir að greini birtist. Andstæðingar Urban mótmæltu dómnum og fannst hann of vægur, hrópuðu „of lítið“ í réttarsalnum. Saksóknarar höfðu farið fram á 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fréttaritari BBC í Varsjá, Adam Easton, segir að páfinn sé svo virtur á meðal Pólverja að næstum öll gagnrýni á páfann sé feimnismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert