Þriðjungur krabbameinssjúkra notar óhefðbundnar lækningar

Þriðjungur þeirra sem eru með krabbamein í Evrópu notar óhefðbundnar lækningar, samkvæmt nýrri könnun rannsókn sem gerð var í 14 löndum. Jurtir eru mest notaðar en hómópatía og vítamín og steinefnameðferðir koma næst. Sérfræðingar frá 14 löndum gerðu könnunina en niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Annals of Oncology. Aðstandendurnir segja að stjórnvöld eigi að endurskoða reglur um slíkar meðferðir vegna þess hversu vinsælar þær eru. Þá ætti að hafa meira eftirlit með þeim sem stunda óhefðbundnar lækningar, segir í tímaritinu Annals of Oncology.

Dr. Alex Molassiotis, frá háskólanum í Manchester í Bretlandi, rannsakaði ásamt starfsfélögum sínum í öðrum löndum Evrópu 1.000 krabbameinssjúklinga. Um 58 lyf sem notuð eru í óhefðbundnum lækningum voru nefnd í könnuninni. Notkun var mismikil eftir löndum, til dæmis var hún tæplega 15% í Grikklandi en næstum því 75% á Ítalíu.

Oftast notuðu sjúklingar meira en eitt slíkt lyf eða meðferð í einu, t.d. bæði jurtalyf og hómópatíu eða slökunarmeðferð. Segir hann að vegna þess hversu vinsælar óhefðbundnar lækningar eru orðnar þurfi að auka eftirlit með þeim. Tryggja þurfi að fólk sem veitir slíka meðferð fái viðeigandi þjálfum. „Hver sem er getur veitt slíka meðferð. Það er engin stofnun eða samtök sem tryggir kunnáttu þeirra sem veita slíka meðferð. Það eru samtök sem meðferðaraðilar geta skráð sig í en það er enginn skyldugur til þess.“

mbl.is
Loka