Fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons lést í sprengjutilræði

Sjónvarpsmynd af sprengingunni sem varð fyrrum forsætisráðherra Líbanons að bana.
Sjónvarpsmynd af sprengingunni sem varð fyrrum forsætisráðherra Líbanons að bana. AP

Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var drepinn í sprengjutilræði í Beirút í dag. Talið var að tveir aðrir fyrrverandi ráðherrar hefðu látið lífið í sprengingunni en þær fréttir voru síðan dregnar til baka. Að minnsta kosti 7 til viðbótar létu lífið, þar af nokkrir lífverðir Hariris. Eldur kviknaði í að minnsta kosti 20 bílum í sprengingunni sem varð utan við frægt hótel, St. George. Svalir á hótelinu sprungu utan af því, breskur banki á svæðinu skemmdist og annað hótel einnig.

Í sjónvarpi voru sýndar myndir af særðu fólki á svæðinu og vegfarendum og sjúkraliðum sem reyndu að koma því til hjálpar. Hariri var milljónamæringur og leiðtogi landsins í tíu ár en sagði af sér í október í fyrra. Hann hefur verið talinn í stjórnarandstöðu síðan þá. Sprengjutilræði voru algeng í Beirút á meðan borgarastyrjöldin stóð yfir 1975-1990, en síðan henni lauk hafa þau verið fátíð. Þó særðist þingmaður stjórnarandstöðunnar í bílsprengju í borginni í október og bílstjóri hans lést, en vaxandi spenna hefur verið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Rafik Hariri yfirgefur þinghúsið í Beirút í morgun ásamt lífvörðum …
Rafik Hariri yfirgefur þinghúsið í Beirút í morgun ásamt lífvörðum sínum. Skömmu síðar lét Hariri lífið í sprengingu. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert