Páfagarður ber mál Schiavo saman við þjáningar Krists

Péturstorgið í Vatikaninu.
Péturstorgið í Vatikaninu. AP

Páfagarður fordæmdi í dag þá ákvörðun bandarísks dómstóls að leyfa Terri Schiavo sem er alvarlega heilasködduð að deyja og bar mál hennar saman við þjáningar og dauða Krists á krossinum.

Yfirlýsingin birtist í dagblaði Páfagarðs Osservatore Romano í dag eftir að alríkis-áfrýjunarréttur í Bandaríkjunum neitaði bón foreldra Schiavo um að slanga sem flytur henni næringu yrði tengd að nýju.

„Því miður hefur Terri Schiavo gengið í gegnum nokkrar pyntingar á sinni þjáningafullu ferð: frá þeim sem fyrst ákváðu að hún skyldi deyja til þeirra skrifuðu undir dóm hennar,“ sagði í blaðinu.

Schiavo hefur verið meðvitundarlaus í 15 ár síðan hún skaddaðist alvarlega á heila í hjartaáfalli.

Geroge W. Bush Bandaríkjaforseti sagðist í dag fylgjast með því hvernig alríkisdómstólar tækju á málinu. Hann varði aðgerðir sínar og þingsins til að varna því að hún yrði látin deyja. „Þetta er mjög sérstakt og sorglegt mál,“ sagði hann á fréttamannafundi.

Foreldrar Schiavo ætla að áfrýja dómi undirréttar til hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert