Terri Schiavo látin

Kona með mynd af Terri Schiavo og Mary Schindler, móður …
Kona með mynd af Terri Schiavo og Mary Schindler, móður hennar, utan við sjúkrahúsið í Flórdía þar sem Terri lá. AP

Lögmaður eiginmanns Terri Schiavo greindi frá því fyrir stundu að hún væri látin en tvær vikur eru frá því Schiavo, sem var heilasködduð og ófær um að nærast á eðlilegan hátt, hætti að fá næringu og vökva í æð að ósk eiginmanns hennar sem hafði forræði yfir henni.

Fimmtán ár eru frá því Schiavo skaddaðist í kjölfar þess að hún fékk hjartastopp sem rakið var til átröskunar og hafa eiginmaður hennar og foreldrar háð harða baráttu um það undanfarin ár hvort rétt væri að halda henni áfram á lífi eða láta hana deyja.

Áfrýjunardómstóll hafnaði í gærkvöldi í þriðja sinn beiðni foreldra Schiavo um að dóttur þeirra yrði áfram haldið á lífi en áður höfðu George W. Bandaríkjaforseti og báðar deildir Bandaríkjaþings samþykkt sérstaka lagasetningu til að reyna að tryggja það að vilji foreldranna næði fram að ganga.

Eiginmaðurinn, sem er í sambúð með annarri konu og á með henni tvö börn, hélt því fram að Terri hefði ekki viljað lifa áfram í því ástandi sem hún var en foreldrar hennar sögðu ekki útilokað að hún gæti náð bata með stóraukinni meðferð.

Móðir Terri Schiavo, Mary Schindler.
Móðir Terri Schiavo, Mary Schindler. AP
mbl.is