Fá ekki að vita hvar Schiavo verður grafin

Terri Schiavo skömmu eftir að hún fékk hjartaáfallið árið 1990.
Terri Schiavo skömmu eftir að hún fékk hjartaáfallið árið 1990. mbl.is

Eiginmaður og foreldrar Terri Schiavo, sem lést í gær 13 dögum eftir að hún hætti að fá næringu og vökva í æð, deila nú um það hvað gera eigi við jarðnerskar leifar hennar. Schindler-hjónin, foreldrar Schiavo, vilja að hún verði jarðsett í Flórída en Michael Schiavo, sem hafði forræði yfir henni, er sagður ætla að láta láta brenna líkamsleifar hennar og grafa öskuna á ótilgreindum stað til að koma í veg fyrir að fjölskylda hennar geti breytt greftrunarstaðnum í áróðurstorg.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður krufningar á líki Schiavo liggi fyrir eftir nokkrar vikur en vonast er til að hún varpi ljósi á það hversu mikill heilaskaði hennar var. Þá vonast foreldrar hennar til þess að krufningin leiði í ljós hvort rekja megi ástand hennar til þess að eiginmaður hennar hafi beitt hana ofbeldi.

Læknar hafa ekki getað gefið skýringar á því hvers vegna Schiavo fékk hjartastopp, sem leiddi til heilaskaðans fyrir fimmtán árum. Eiginmaður hennar segist telja að það hafi verið afleiðing átröskunar, sem hún átti við að etja, en foreldrar hennar segja hann hafa beitt dóttur þeirra ofbeldi og að það hafi hugsanlega orsakað hjartastoppið.

mbl.is