Einn lét lífið og þrír særðust þegar til skotbardaga kom á Pusher Street, aðalgötunni í fríríkinu Kristjaníu í Kaupmannahöfn í dag. Var vélbyssum beitt í bardaganum. Mikið uppnám varð á svæðinu og flýðu margir frá Kristjaníu skelfingu lostnir. Svo virðist sem hópur manna hafi komið inn í fríríkið og hafið skothríð. Eftir árásina ógnuðu þeir manni, sem var á ferð í bíl utan við Kristjaníu og flúðu á bílnum. Lögregla leitar nú að fjórum mönnum í stórum dökkum bíl, að sögn fréttastofunnar Ritzau.
Lögreglan segir að ekki sé vitað hvers vegna árásarmennirnir hófu skothríð en verið sé að yfirheyra vitni og reyna að bregða ljósi á málið.
Svo virðist sem árásarmennirnir hafi komið af svæðinu við Den grå Hal í Kristjaníu og gengið að Pusher Street. Þar drógu þeir upp vélbyssu og skammbyssu og skutu á fólk, sem var á ferð í götunni en þar voru áður hasssölubásar áður en lögregla stöðvaði kannabissölu í Kristjaníu á síðasta ári.
Lögreglan vildi ekki tjá sig um hvort árásin kynni að tengjast hassklúbbum, sem sprottið hafa upp í Kaupmannahöfn eftir að hasssalan í Pusher Street var stöðvuð.