Koizumi segir Japani iðrast stríðsglæpa sinna

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, við komuna til Jakarta í morgun.
Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, við komuna til Jakarta í morgun. AP

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, baðst í morgun afsökunar á stríðsglæpum Japana í síðari heimsstyrjöldinni á ráðstefnu Asíu og Afríkuríkja sem haldinn er í Jakarta í Indónesíu. Fátt nýtt kom fram í orðum Koizumis en hann sagði Japani hafa valdið nágrönnum sínum miklum skaða og þjáningum og iðrast þess sárlega.

Talið er að með afsökunarbeiðni sinni nú hafi Koizumi viljað leggja grunn að sáttum Japana og Kínverja en mikil reiði ríkir í Kína vegna nýrra japanskra kennslubóka þar sem lítið er gert úr hrottaverkum Japana í Kína.

Afsökunarbeiðni Koizumis bætir þó engu við afsökunarbeiðni Tomiichi Murayama, þáverandi forsætisráðherra landsins, árið 1995 en fórnarlömb stríðsins hafa alltaf sagt þá afsökunarbeiðni ófullnægjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert