Löglegt að búa til sérhönnuð systkini

Bresku Lagalávarðarnir, sem samsvara hæstarétti landsins, úrskurðuðu í morgun að það væri löglegt að búa til sérhönnuð börn með sérstaka erfðafræðieiginleika sem hugsanlega geta nýst við meðhöndlun veikra systkina þeirra. Dómararnir fimm staðfestu þar með dóm undirréttar einróma en með úrskurði undirréttar féll bann við nýtingu erfðafræðirannsókna og tæknifrjóvgunar til að búa til sérhönnuð börn úr gildi.

Málið kom upp er hjónin Raj og Shahana Hashmi óskuðu eftir aðstoð við að geta barn sem hefði erfðaeiginleika sem gætu nýst við meðhöndlun ungs sonar þeirra sem þjáist af sjaldgæfum, banvænum blóðsjúkdómi. Eftir að undirréttur hafði dæmt í málinu hlutu þau þá aðstoð sem þau fóru fram á en málið fékk þó skjótan endi er frú Hashmi missti fóstur.

mbl.is