Frakkar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins

Atkvæðaseðlar flokkaðir fyrir talningu í dag.
Atkvæðaseðlar flokkaðir fyrir talningu í dag. AP

Mikill meirihluti Frakka greiddi atkvæði gegn nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Samkvæmt tölum, sem franska innanríkisráðuneytið birti í kvöld höfðu 57,26% kjósenda greitt atkvæði gegn stjórnarskránni þegar búið var að telja 83% atkvæða en 42,74% greiddu atkvæði með stjórnarskránni. Kjörsókn var mikil eða á milli 70-80%.

Úrslitin eru mikið áfall fyrir Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hafði beitt sér fyrir því að Frakkar samþykktu stjórnarskrána. Jean-Marie Le Pen, leiðtogi Þjóðarfylkingarinnar, hvatti til þess að Chirac segði af sér í kjölfar þess að útgönguspárnar voru birtar.

Útgönguspár, sem birtar voru klukkan 20 þegar kjörstöðum var lokað bentu allar til þess að um 55% kjósenda hefðu sagt nei. Samkvæmt niðurstöðu CSA stofnunarinnar greiddu um 55,6% atkvæði gegn stjórnarskránni, Ipsos stofnunin taldi að 55% hefði greitt atkvæði gegn stjórnarskránni og Sofres sagði að 54,5% hefðu sagt nei.

Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakklands, sagði að þessi niðurstaða væri mikil vonbrigði. Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra, sagði að niðurstaðan væri ósigur fyrir Frakkland og Evrópu.

Ekki er ljóst hvaða áhrif þetta hefur á Evrópusambandið en öll aðildarríki ESB þurfa að staðfesta stjórnarskrána til að hún öðlist gildi. Þegar hafa 9 aðildarríki ESB samþykkt stjórnarskrána en búist er við að úrslitin í Frakklandi hafi einskonar dómínó-áhrif og önnur ríki muni hafna stjórnarskránni. Hollendingar kjósa um stjórnarskránna á miðvikudag og er búist við að þeir hafni henni einnig. Bretar hafa gefið til kynna, að þeir muni hætta við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána felli Frakkar hana.

Samkvæmt stjórnarskránni á að stofna til embættis forseta ESB, og einfalda ákvarðanaferla innan sambandsins til að gera Evrópusambandsinu auðveldara að mæta vaxandi samkeppni frá öðrum heimshlutum. en talið er að Frakkar hafi óttast, að stjórnarskráin myndi grafa undan velferðarkerfi landsins, breyta valdahlutföllum í Brussel og leiða til þess að ódýrt vinnuafl frá austurhluta Evrópu streymi inn í landið.

mbl.is