Persson segir að Svíar eigi að halda staðfestingarferlinu áfram

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag að Svíar muni halda áfram staðfestingarferli stjórnarskrár Evrópusambandsins þótt Frakkar hafi hafnað stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag.

Persson sagði við sænska fjölmiðla, að niðurstaðan í Frakklandi væri auðvitað áfall en að hann búist við að sænska þingið staðfesti stjórnarskrána í desember eins og áformað hefði verið.

„Við munum taka okkar eigin afstöðu til stjórnarskrárinnar," sagði Persson. Meirihluti sænskra þingmanna hefur lýst stuðningi við stjórnarskrána.

Persson sagði, að stjórnarskráin væri nauðsynleg forsenda þess að ESB gæti haldið áfram að stækka. Niðurstaðan í kvöld væri alvarlegt áfall fyrir Jacques Chirac, forseta Frakklands, og ríkisstjórn hans.

Græningjar, sem veita sænsku minnihlutastjórninni stuðning, hafa gagnrýnt Persson fyrir að vilja ekki láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá ESB og sögðu í kvöld að Svíar eigi að aflýsa fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu í þinginu um stjórnarskrána þar semn sú atkvæðagreiðsla væri marklaus í ljósi niðurstöðunnar í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert