Chirac kallar De Villepin til sín eftir fund með Raffarin

Jacques Chirac Frakklandsforseti einbeittur á svip í Elyseehöll en við …
Jacques Chirac Frakklandsforseti einbeittur á svip í Elyseehöll en við hlið hans sitja (t.v.) Dominique de Villepin og Jean-Pierre Raffarin. ap

Dominique de Villepin innanríkisráðherra Frakka gengur á fund Jacques Chirac forseta klukkan 16 að frönskum tíma, klukkan 14 að íslenskum tíma, en stjórnmálaskýrendur telja að á fundinum í Elyseehöllu verði ráðherrann beðin að mynda nýja ríkisstjórn. Chirac fundaði í morgun með Jean-Pierre Raffarin um stöðuna sem upp er komin eftir að franskir kjósendur felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæði.

Búist hefur verið við að Raffarin segði af sér í framhaldi af þjóðaratkvæðinu í gær þar sem 54,87% kjósendu sögðu nei við stjórnarskrá ESB og 45,13% sögðu já.

Frakkar eru eitt af sex stofnríkjum ESB og hið fyrsta til að hafna nýjum stjórnarskrársáttmála. Þykja úrslitin í gær löðrungur fyrir Chirac forseta og jafnvel eru þau talin eiga eftir að ganga af hugmyndum um pólitískt bandalag Evrópuríkja dauðum.

Þykir líklegt að Hollendingar felli stjórnarskrána einnig í þjóðaratkvæði á miðvikudag.

Raffarin gekk árla í dag á fund Chirac sem boðaði „útspil“ síðar í dag eða á morgun. Var það túlkað sem svo að afsögn hins óvinsæla forsætisráðherra.

Búist er við að Raffarin (t.h.) biðji Chirac lausnar fyrir …
Búist er við að Raffarin (t.h.) biðji Chirac lausnar fyrir sig og stjórn sína. ap
mbl.is