Frönskum kjósendum líst best á að Sarkozy taki við af Raffarin

Nicolas Sharkozy.
Nicolas Sharkozy. AP

Frönskum kjósendum líst best á að Nicolas Sarkozy taki við embætti forsætisráðherra ef Jean-Pierre Raffarin verður vikið úr embætti í kjölfar þess að stjórnarskrá Evrópusambandsins var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi í gær.

Kemur þetta fram í nýrri könnun sem dagblað í París birtir í dag, en samkvæmt því nýtur Sarkozy stuðnings 25% landsmanna. Næsti maður hefur 13% stuðning.

Sarkozy er einn helsti keppinautur Jacques Chiracs forseta og leiðtogi flokks forsetans, UMP. Telja margir líklegt að Sarkozy muni bjóða sig fram til forseta 2007, og hefur hann í könnunum notið fylgis til þess.

Í könnuninni í dag var það varnarmálaráðherrann, Michele Alliot-Marie, sem næstflestir töldu bestan til að taka við af Raffarin, en það er sá sem kom þriðji, Dominique de Villepin, innanríkisráðherra, sem talið er að sé líklegastur til að verða forsætisráðherra, ef Raffarin verður gerður að blóraböggli fyrir úrslit stjórnarskráratkvæðagreiðslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert