Chirac: Frakkar hafa ekki hafnað Evrópuhugsjóninni

Jacques Chirac, forseti Frakklands.
Jacques Chirac, forseti Frakklands. AP

Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagði í sjónvarpsávarpi í Frakklandi í dag að franska „neiið“ í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins þýddi ekki að Frakkar hefðu „hafnað Evrópuhugsjóninni.“ Sagði Chirac að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar fæli í sér kröfu um „aðgerðir og árangur.“ Þetta sagði Chirac þegar hann skýrði þá ákvörðun sína að útnefna nýjan forsætisráðherra fyrr í dag.

„Þið farið fram á ákveðnar aðgerðir þegar í stað til þess að bregðast við þeim vanda sem nú er við að etja, sem er atvinnuleysi og kaupmáttur,“ sagði Chirac í ávarpinu og fólst í orðum hans viðurkenning á óánægju sem ríkt hefur með efnahagsstefnu hans.

Chirac staðfesti að Nicolas Sarkozy, sem er keppinautur hans í stjórnmálum, yrði meðal ráðherra í nýrri ríkisstjórn, sem Dominique de Villepin mun leiða.

mbl.is