Schröder hvetur ESB-ríki til þess að halda staðfestingarferli stjórnarskrár áfram

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, í Lúxemborg í dag.
Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, í Lúxemborg í dag. AP

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, hvetur aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) til þess að halda áfram staðfestingarferli stjórnarskrár þess, þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar hafi hafnað henni í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þetta kom fram í máli Schröders í Lúxemborg í dag en þá hitti hann Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar að máli. Lúxemborg er um þessar mundir í forsvari fyrir ESB.

Schröder sagði að öll aðildarríki ESB, sem eru 25 talsins, yrðu að taka afstöðu til málsins. „Að gera of mikið úr hlutunum á þessu stigi málsins er rangt,“ sagði kanslarinn einnig.

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði fyrr í dag að það væri bæði „hættulegt“ og „heimskulegt“ fyrir önnur aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) að líta framhjá þeirri staðreynd að hollenskir og franskir kjósendur hefðu hafnað fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins.

mbl.is