Líklega stórfelld hryðjuverkaárás segir yfirmaður Lundúnalögreglunnar

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í borginni.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í borginni. AP

Yfirmaður Lundúnalögreglunnar segir að líklega sé um stórfellda hryðjuverkaárás að ræða í borginni. Talið er að nokkrir séu látnir. Sprengibúnaður hefur fundist á einum stað í neðanjarðarlestarkerfinu.

Tvær sprengjur sprungu á tveimur neðanjarðarlestarstöðvum og þrjár í strætisvögnum á nokkrum stöðum í miðborginni. Staðfest hefur verið að tveir eru látnir og að minnsta kosti 90 slasaðir á lestarstöðinni í Aldgate. Allar ferðir neðanjarðarlesta og strætisvagna hafa verið lagðar niður í borginni.

Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands, sagði að „hræðileg slys“ hefðu orðið vegna sprenginganna og vottaði hann aðstandendum samúð sína.

Búist er við að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, muni flytja ávarp til þjóðarinnar frá fundi leiðtoga helstu iðnríkjanna átta í Gleneagles í Skotlandi innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert