Sprengingar í Lundúnum hafa engin áhrif á ákvörðun ólympíunefndarinnar

Sendinefnd Lundúnaborgar, sem í gær tókst að sannfæra Alþjóða ólympíunefndina um að best væri að halda ólympíuleikana árið 2012 í Lundúnum, sagðist í dag harmi slegin vegna sprengjuárásanna í borginni í morgun. Talsmaður ólympíunefndarinnar sagði að sprengingarnar hefðu engin áhrif á ákvörðunina sem tekin var í gær.

„Ég er algerlega miður mín," sagði Ken Mills, sem fór fyrir hópnum sem fylgdi umsókn Lundúna eftir á fundi ólympíunefndarinnar í Singapúr.

Giselle Davies, talsmaður Alþjóða ólympíunefndarinnar, sagði að ekki stæði til að endurskoða ákvörðunina, sem tekin var í gær um að ólympíuleikarnir 2012 verði í Lundúnum.

„Okkur skilst að þetta tengist með engum hætti ólympíuleikunum. Við berum fullt traust til stjórnvalda í Lundúnum um að tryggja öryggi á leikunum."

Mills sagði, að sprengingarnar í morgun sýni, að engin borg geti sloppið við hryðjuverkastarfsemi. „Jafnvel Lundúnir, sem sennilega býr yfir bestu og skilvirkustu öryggisþjónustu í heimi á í erfiðleikum með að fást við slíkar árásir."

Mills sagðist vera að undirbúa brottför frá Singapúr til Lundúna ásamt Ken Livingstone, borgarstjóra, og Sebastian Coe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert