Sprengingarnar „bera öll merki al-Qaeda“ segja sérfræðingar

Lögreglumaður stendur vörð en í bakgrunni sést strætisvagn sem var …
Lögreglumaður stendur vörð en í bakgrunni sést strætisvagn sem var sprengdur í loft upp við Russel torg í miðborg London. AP

Sprengjuárásirnar í London í dag bera öll merki al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, segir breskur sérfræðingur í hryðjuverkum. „Árásirnar ber öll merki al-Qaeda,“ segir Paul Wilkinson, öryggissérfræðingur við St. Andrews háskóla í Skotlandi. „Þær eru greinilega gerðar til að valda sem mestum skaða hjá almenningi og beinast að almenningssamgöngum, eins og í árásinni í Madrid,“ 11. mars í fyrra þegar 191 létu lífið.

Annar sérfræðingur hjá St. Andrews, Magnus Ranstorp, segir lestarkerfið í London „mjög freistandi skotmark.“ „Þetta er eitt augljósasta skotmarkið í Evrópu. Það er engin leið til að verjast þessu,“ segir hann.

Hann sagði að líklega hefðu nokkrir lauslega tengdir hópar gert árásirnar og að minnsta kosti 10-20 manns hafi þurft til að framkvæma þær.

Hann sagði að árásirnar væru gerðar til að trufla fund leiðtoga átta helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi. „Þetta er greinilega gert vegna G8 fundarins. Allar pælingar um að þetta sé vegna ákvörðunarinnar um að halda Ólympíuleikana í London eru vitleysa því það hefur tekið langan tíma að skipuleggja þetta. Þetta er greinilega gert til að varpa skugga á það sem gerist á G8 fundinum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert