Símtal þar sem rætt var um „sprengingar sem verða á morgun“ í rannsókn í Finnlandi

Finnska lögreglan hefur hafið rannsókn vegna ábendinga sem henni hafa borist um símtal sem nokkur ungmenni heyrðu degi fyrir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum sem áttu sér stað í gær. Í símtalinu, sem nokkur ungmenni heyrðu, var talað um „sprengingar“ og „á morgun“ heyrðist þar einnig koma fyrir.

„Við höfum hafið rannsókn,“ segir Paavo Selin, yfirmaður deildar innan finnsku lögreglunnar sem fæst við rannsóknir á hryðjuverkum í samtali við AFP-fréttastofuna.

Finnska blaðið Ilta-Sanomat skýrði frá því í dag að allnokkur ungmenni hefðu heyrt manneskju ræða í farsíma á miðvikudag um „sprengingar (sem) verða á morgun.“ Að sögn blaðsins tilkynntu ungmennin um símtölin til lögreglu seint á miðvikudagskvöld.

Í hryðjuverkaárásunum sem gerðar voru í miðborg Lundúna í gær fórust meira en 50 manns og um 700 manns særðust.

Selin benti á að enn væri of snemmt að draga ályktanir í málinu. „Við höfum enga tengingu fundið við hryðjuverk eða það sem átti sér stað í Lundúnum,“ sagði hann. „Nokkur ungmenni heyrðu grunsamlegt símatal og út frá þeim kringumstæðum sem eru fyrir hendi höfum við ákveðið að komast til botns í málinu, en ekki lítur út fyrir að um neitt óvenjulegt sé að ræða,“ bætti hann við.

Fréttir af hinu grunsamlega símtali hafa verið nokkuð misvísandi. Meðal annars hefur verið greint frá því að það hafi átt sér stað um borð í strætisvagni í Finnlandi en aðrir hafa haldið því fram að símtalið hafi farið fram í Lundúnum. Þá segja sumir að sá sem talaði í símann hafi mælt á finnsku en aðrir segja samtalið hafa átt sér stað á ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert