Segir Frakka ávallt í viðbragsstöðu vegna hugsanlegra hryðjuverka

Dominique de Villepin.
Dominique de Villepin. AP

Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, sagði í dag að Frakkar væru ávallt í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása. Þá sagði ráðherrann að ekkert ríki gæti litið svo á að það væri óhult fyrir hryðjuverkum.

„Við vitum að allsstaðar á landi okkar, allsstaðar í Evrópu, eru hættur og þess vegna erum við í fyllstu viðbragðsstöðu,“ sagði hann í dag. Fyrir tveimur dögum fórust í það minnsta 50 manns í hryðjuverkaárásum í Lundúnum í Bretlandi.

De Villepin sagði að ávallt yrði að vera í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra hryðjuverka og að ekkert land væri óhult fyrir þeim.

Frakkar juku öryggisráðstafanir lítillega á fimmtudag eftir árásirnar í Lundúnum. Hermönnum á stöðum sem taldir eru í hættu, svo sem á stórum lestarstöðvum og flugvöllum, var fjölgað. Þá var landamæraeftirlit hert. De Villepin sagðist „engar ákveðnar upplýsingar geta gefið“ í tengslum við hótanir sem hópar innan al-Qaeda hafa gefið um frekari árásir „á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert