Sérfræðingar frá Spáni aðstoða við rannsókn á hryðjuverkunum í Lundúnum

Blómvendir hafa verið lagðir við inngang King's Cross lestarstöðvarinnar í …
Blómvendir hafa verið lagðir við inngang King's Cross lestarstöðvarinnar í Lundúnum en þar sprakk ein sprengjanna á fimmtudag. AP

Umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Lundúnum á fimmtudag er að hefjast, en meira en 50 manns létu lífið í árásunum og um 700 særðust. Lið sérfræðinga frá Spáni sem vann að rannsókn hryðjuverkaárása sem framdar voru í lestum í Madríd í fyrra, er á leiðinni til Lundúna til þess að aðstoða við rannsókn þar. Áfram er haldið að reyna að ná líkum úr jarðlestarvagni sem er tugi metra undir yfirborði jarðar við King's Cross lestarstöðina.

Ættingjar fólk sem saknað er eftir hryðjuverkin hafa farið á þá staði sem urðu fyrir sprengingum í leit að upplýsingum um ástvini sína.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í samtali við BBC í dag að aukið eftirlit og öryggi dygði ekki til þess að koma í veg fyrir árásir af þessu tagi. Hugmyndafræðilegt átök yrðu að eiga sér stað og nauðsynlegt væri að rífa hryðjuverkastarfsemi „upp með rótum.“

Blair lofaði „sálrænt þrek“ Lundúnabúa, en þar er samgöngukerfið nú smám saman að komast í eðlilegt horf. Umferð er nú um hluta allra jarðlestarlína í borginni.

Rannsókn lögreglu beinist nú að nýju að tímasetningu sprengjuárásanna. Til rannsóknar eru fullyrðingar um að minna en fimm mínútur hafi liðið milli sprenginganna fjögurra, en ekki meira en 25 mínútur eins og lögregla taldi fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert