Breska lögreglan sprengdi upp grunsamlegan hlut í húsi í Leeds

Breskir lögreglumenn að störfum við hús við Colwyn Road í …
Breskir lögreglumenn að störfum við hús við Colwyn Road í Beeston í Leeds í morgun. AP

Lögregla sem vinnur að rannsókn á hryðjuverkunum í Lundúnum í síðustu viku gerði húsleit í sex húsum í Leeds um klukkan hálf sjö að staðartíma í morgun. Lögreglan sprengdi grunsamlegan hlut í einu húsanna en að hennar sögn hefur enginn verið handtekinn í bænum.

Að sögn lögreglunnar var mikill viðbúnaður hafður við rannsókn málsins. Um 500 manns í nokkrum götum sem húsið stendur við var gert að rýma heimili sín. Þá var fólk flutt út úr moskum, af sjúkrahúsum og elliheimilum. Í kjölfarið var götum lokað og stóðu lögreglumenn vörð við nokkrar götur í hverfinu.

Þá greindi fréttamaður breska ríkisútvarpsins, BBC frá því að nokkrir lögreglumenn stæðu í skjóli á bak við bíla sína fyrir utan hús í Burleyhverfinu í borginni, en þar var grunsamlegur hlutur sprengdur í loft upp í morgun.

Rannsóknin í Leeds var framkvæmd samkvæmt lögum gegn hryðjuverkum sem samþykkt voru í Bretlandi árið 2000 en unnið var eftir upplýsingum sem komið hafa í ljós í kjölfar rannsóknar á hryðjuverkunum í Lundúnum í síðustu viku.

Gerð hafa verið opinber nöfn 5 fórnarlamba af þeim 52 sem létust í hryðjuverkaárásunum í Lundúnum í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert