Meintir ódæðismenn breskir ríkisborgarar

Að minnsta kosti 52manns fórust í árásunum í Lundúnum.
Að minnsta kosti 52manns fórust í árásunum í Lundúnum. AP

Breska lögreglan telur sig nú vita hverjir frömdu hryðjuverkin í London síðastliðinn fimmtudag. Gengið er út frá því að fjórir menn sem vitað er að komu saman til London um morguninn frá Yorkshire-héraði hafi borið sprengjur ofan í þrjár neðanjarðarlestir og í strætisvagn og síðan sprengt þær með þeim afleiðingum að a.m.k. 52 biðu bana. Grunur leikur á því að um sjálfsmorðsárásir hafi verið að ræða en staðfest var í gær að a.m.k. einn ódæðismannanna hefði dáið í tilræðunum.

Upptökur eftirlitsmyndavéla hafa leitt í ljós að umræddir menn komu saman í lest til King's Cross-lestarstöðvarinnar í London um kl. 8.30 á fimmtudagsmorgun, um tuttugu mínútum áður en sprengjurnar sprungu á fjórum ólíkum stöðum. Mennirnir munu hafa farið um borð í lest í Luton sem flutti þá til King's Cross. Voru þeir allir með bakpoka. Síðar í gær fannst bifreið í Luton sem hafði að geyma sprengiefni. Lögreglan girti af svæðið, þar sem bíllinn fannst, en hafi umræddir menn komið í bílnum frá Yorkshire og skilið hann eftir í Luton er sennilegt að frekari sönnunargögn sé að finna í honum.

Búið er að bera kennsl á þrjá mannanna á umræddum upptökum eftirlitsmyndavéla. Ekki hefur hins vegar tekist að bera kennsl á þann fjórða, að sögn BBC, og er enn óljóst hvort hann lést í sprengingunni í neðanjarðarlest nálægt King's Cross eða hvort hann komst undan á lífi.

Einn maður var handtekinn í aðgerðum lögreglunnar í Yorkshire í gærmorgun. Hann mun vera skyldmenni eins af meintum sprengjumönnum. Fjórmenningarnir voru allir breskir ríkisborgarar, a.m.k. þrír þeirra eru sagðir af pakistönsku bergi brotnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert