Telur nauðsynlegt að vinna með samfélagi múslíma í Bretlandi

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í ræðu sinni í breska þinginu fyrir stundu, að ríkisstjórn hans myndi hefjast handa við mótun nýrra laga gegn hryðjuverkum á næstum viku. Blair beindi orðum sínum til leiðtoga safnaða múslíma í landinu og sagði mikilvægt að koma í veg fyrir mistúlkun á trú múslíma.

„Við eigum ekki við einangraðan glæp,“ sagði Blair en nýjar vísbendingar benda til að fjórir menn hafi sprengt sig í loft upp í hryðjuverkunum; a.m.k þrír þeirra voru frá Bretlandi og einn af pakistönsku ætterni.

Þá bætti hann við að hugmyndafræði hryðjuverkamanna byggist á rangtúlkun á orðum Kóransins og íslamskri trú og yrði ríkisstjórnin að vinna náið með söfnuðum múslíma til að koma í veg fyrir slíka mistúlkun í framtíðinni. Muni það samstarf hefjast fljótlega en síðar í dag mun Blair funda með lögfræðingum sem aðhyllast trú múslíma að mótun laga og annarra fyrirbyggjandi aðgerða gegn hryðjuverkum.

Þá tilkynnti hann þingmönnum að 50 þeirra sem slösuðust í hryðjuverkaárásunum í borginni í síðustu viku væru enn á sjúkrahúsi, þar af væru 12 á gjörgæslu.

Lögfræðingur úr röðum Verkamannaflokksins sagði í samtali við fréttastofu Associated Press, að samfélag múslíma í landinu hefði fordæmt hryðjuverkin. Hann sagðist telja að nokkrir róttækir klerkar í söfnuðum múslíma í Bretlandi eigi sök á því að espa upp unga óánægða múslíma í landinu og benti á að þótt um væri að ræða tiltölulega lítinn hóp öfgamanna þá væri ekki hægt að virða að vettugi hættuna sem af þeim stafaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert