Bresk lögregla sögð leita tveggja manna vegna sprengjuárásanna

Breska lögreglan birti þessa mynd í morgun af skemmdum sem …
Breska lögreglan birti þessa mynd í morgun af skemmdum sem urðu á neðanjarðarlest við Aldgate brautarstöðina þegar sprengja sprakk þar sl. fimmtudag. AP

Lögregla er sögð leita tveggja manna í tengslum við sprengjuárásirnar í Lundúnum fyrir viku. Að sögn fréttavefjar Sky sjónvarpsstöðvarinnar er annar maðurinn nefndur „höfuðpaurinn" og hinn „efnafræðingurinn". Talið er ljóst að fjórir menn, sem sprengdu sprengjurnar fjórar, hafi látið lífið og hafa nöfn þeirra verið birt í Bretlandi.

Tveggja mínútna þögn verður víða í Evrópu klukkan 11 að íslenskum tíma í dag til að minnast þeirra sem létust í sprengjuárásunum. Í Bretlandi verða strætisvagnar og leigubílar stöðvaðir. Neðanjarðarlestir munu halda áfram ferð sinni en tilkynnt verður um þagnarstundina. Þá er fólk hvatt til að standa utan við hús sín og vinnustaði.

Áður hafði verið upplýst að þeir Shehzad Tanweer, 22 ára, Hasib Mir Hussain, 18 ára og Mohammed Sadique Khan, þrítugur, hefðu sprengt þrjár af sprengjunum fjórum þar sem 52 létu lífið að minnsta kosti og yfir 700 særðust. Þeir voru búsettir í Leeds og nágrenni, synir pakistanskra innflytjenda. Nú þykir ljós, að Ejaz Fiaz hafi verið fjórði árásarmaðurinn, en hann er talinn hafa sprengt sprengju í lest við Russel Square. Fiaz var frá Leeds en er talinn hafa búið með indverskri konu í Luton.

Fram hefur komið, að lögregla veitti tveimur mönnunum viðvörun fyrir minniháttar afbrot á síðasta ári og einn hafði lent í rannsókn, en ekki verið handtekinn, í aðgerð gegn hryðjuverkastarfsemi árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert