Telur hryðjuverkin í Lundúnum bera merki al-Qaeda

Mynd sem lögreglan í Bretlandi gerði opinbera í dag sýnir …
Mynd sem lögreglan í Bretlandi gerði opinbera í dag sýnir Hasib Hussain, sem talinn er hafa sprengt upp strætisvagninn í Lundúnum fyrir viku síðan. AP

Lögregla í Bretlandi sagðist í dag telja víst að sprengjuárásirnar í Lundúnum í síðustu viku, sem urðu 53 að bana, beri öll merki þess að vera skipulagðar af hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda. „[Mennirnir] sem framkvæmdu hryðjuverkin fóru um borð í lestarnar og strætisvagninn með það fyrir augum að þeir myndu deyja,“ sagði Ian Blair, yfirmaður lögreglunnar, í dag og bætti við að þetta væri einkenni al-Qaeda.

Hins vegar benti hann á að eftirtektarvert væri hversu ólíkar starfsaðferðir al-Qaeda væru öðrum hryðjuverkahópum, sem framkvæmdu verk sín með það fyrir augum að þvinga stjórnvöld að samningaborði. Al-Qaeda sprengdi hins vegar upp samningaborðið. Þá staðfesti hann að ódæðismennirnir hefðu verið fjórir og þar af hefðu þrír þeirra verið með breskt ríkisfang.

Hann neitaði að staðfesta að fjórði maðurinn hafi verið frá Jamaíka og búsettur í Bretlandi.

Þá ítrekaði hann að þótt líkur bentu til að annað hryðjuverk yrði framið þá þýddi það ekki að víst yrði að slíkt myndi gerast. Hann sagði þó ólíklegt að um efnavopnaárás yrði að ræða.

Á fundinum birti lögreglan myndir af þeim sem talinn er eiga aðild að því að sprengja upp stætisvagn við Tavistock Square um svipað leyti og þrjár sprengjur sprungu í neðanjarðarlestum í Lundúnum að morgni fimmtudags fyrir viku. Maðurinn hét Hasib Hussein og var 19 ára breskur ríkisborgari af pakistönsku bergi brotinn og bjó í Leeds. Haft er eftir vini hans að hann hafi verið afar indæll drengur sem öllum hafi líkað vel við. Talið er að hann hafi ásamt hinum tilræðismönnunum komið með lest frá Luton, sem er bær um 50 km norður af Lundúnum.

Mynd úr öryggismyndavél á Luton lestarstöðinni sýnir Hasib Hussain, sem …
Mynd úr öryggismyndavél á Luton lestarstöðinni sýnir Hasib Hussain, sem talinn er hafa sprengt upp strætisvagninn við Tavistock Square. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert