Greindur og hlédrægur maður sem ólst upp í fátækrahverfi

Í hverfinu sem hann mun hafa alist upp í í …
Í hverfinu sem hann mun hafa alist upp í í Kaíró. AP

Egypski lífefnafræðingurinn sem handtekinn var í Kaíró í dag í tengslum við árásirnar í London í síðustu viku, var greindur, ungur maður sem starfaði við eina virtustu rannsóknarstofnun í Egyptalandi. Hann kom úr lágstéttarfjölskyldu sem hafði eytt miklu fé til að hann gæti stundað nám erlendis.

Magdy el-Nashar, 33 ára, kenndi efnafræði við háskólann í Leeds þar til viku fyrir árásirnar að hann sneri heim til Egyptalands. Hann var handtekinn fyrir fjórum eða fimm dögum í Kaíró eftir að breskir embættismenn gáfu egypskum yfirvöldum upp nafn hans.

Þegar hann var yfirheyrður í Egyptalandi neitaði hann að hafa komið að árásunum og sagði að hann ætlaði að fara aftur til Leeds eftir frí í Egyptalandi. Hann er enn í haldi en ekki er ljóst hvort hann verður framseldur til Bretlands.

Haft var eftir Habib el-Adly, innanríkisráðherra Egyptalands, í egypsku blaði að Nashar hefði engin tengsl við al-Qaeda. Bresk yfirvöld segja heima hjá honum hafi fundist vísbendingar um að efni sem kallast TATP hefði þar verið breytt í öflugt sprengiefni.

El-Nashar ólst upp í fjölmennu fátækrahverfi, einu versta hverfinu í Kaíró. Faðir hans er kominn á eftirlaun en átti rafsuðuverkstæði við húsið þeirra. Fyrir nokkrum árum flutti fjölskyldan í betra hverfi.

Hann mun hafa verið afar hlédrægur og sást sjaldnast ræða við fólk, að sögn manns sem á bróður sem giftur er systur Nashar. Sagði hann að fjölskyldan væri harmi slegin eftir að hafa heyrt fréttirnar af honum.

„Ég trúi á sakleysi hans, spurðu hvern sem er hérna úti á götu eða í skólanum og þeir munu segja að öll hans athygli hafi beinst að náminu og rannsóknum,“ sagði hann.

El-Nashar lærði efnafræði við háskólann í Kaíró og var tekinn inn í doktorsnám við virtustu rannsóknastofnun landsins. Hann fékk styrk til að læra við háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum en flutti til Leeds þegar hann fékk kennara- og rannsóknarstöðu við háskólann þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert