Lögregla birtir mynd af meintum sjálfsmorðsárásarmönnum í Lundúnum

Mennirnir koma til lestarstöðvarinnar í Luton. Frá vinstri eru Hasib …
Mennirnir koma til lestarstöðvarinnar í Luton. Frá vinstri eru Hasib Hussain, Germaine Lindsay, Mohammed Sidique Khan og Shahzad Tanweer. AP

Breska lögreglan birti í dag mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir mennina fjóra sem grunaðir eru um að hafa staðið fyrir sjálfsmorðsárásunum í Lundúnum þann 7. júlí. Á myndinni eru þeir að koma til lestarstöðvarinnar í Luton, stuttu áður en árásirnar voru gerðar. Mennirnir eru allir með stóra bakpoka, og tveir þeirra eru með derhúfur.

Lundúnalögreglan Scotland Yard sendi frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest er að maður, sem ferðaðist frá Vestur-Jórvíkurskíri og lét lífið í sprengingu í Edgware Road hafi verið Mohammed Sidique Khan, þrítugur að aldri. Segir í yfirlýsingunni, að talið sé að Khan hafi borið ábyrgð á þeirri sprengjuárás þar sem sjö manns létu lífið.

Þá segist lögreglan einnig geta staðfest að fjórði maðurinn, sem hafi komið til Lundúna ásamt hinum mönnunum þremur frá Vestur-Jórvíkurskíri, og hafi síðan látist í sprengingu milli lestarstöðvanna King's Cross og Russell Square hafi heitið Germaine Lindsay, 19 ára gamall, fæddur á Jamaíka en bjó í Bretlandi. Talið sé að hann hafi sprengt sprengju í lest á milli stöðvanna. 27 manns létust af völdum sprengingarinnar þar. Hinir tveir mennirnir hétu Hasib Hussain, 18 ára, og Shahzad Tanweer, 22 ára.

Scotland Yard birti mynd úr öryggismyndavél sem tekin var af fjórmenningunum á brautarstöðinni í Luton, 40 km norður af Lundúnum.

Mennirnir hittust á brautarstöðinni í Luton klukkan 7:20 að breskum tíma að morgni fimmtudagsins 7. júlí. Þeir héldu þaðan til King's Cross lestarstöðvarinnar í Lundúnum þar sem einnig náðist mynd af þeim saman. Fyrsta sprengingin varð í neðanjarðarlest sem var að fara frá Liverpool Street stöðinni klukkan 8:51 að staðartíma. Klukkan 8:56 sprakk önnur sprengja á milli King´s Cross og Russell Square stöðvarinnar, þriðja sprengjan sprakk við Edgware Road lestarstöðina klukkan 9:17 og klukkan 9:47 varð fjórða sprengingin í tveggja hæða strætisvagni í Upper Woburn Place.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert