Ákveðið að stofna starfshóp í Bretlandi gegn hryðjuverkum

Leiðtogar breskra stjórnmálaflokka og múslima á fundi í Lundúnum í …
Leiðtogar breskra stjórnmálaflokka og múslima á fundi í Lundúnum í morgun. Reuters

Leiðtogar stærstu stjórnmálaflokka Bretlands og leiðtogar múslima í landinu áttu fund í morgun í Downingstræti 10, bústað forsætisráðherra Bretlands í Lundúnum, þar sem rætt var um hryðjuverkaárásirnar á Lundúnaborg og ástæður þeirra. Tony Blair forsætisráðherra sagði eftir fundinn að þar hefði verið ákveðið að ráðast að rótum hryðjuverkastarfsemi í landinu og verður settur á stofn starfshópur til að fjalla um málið.

Blair sagði að fundurinn hefði verið uppörvandi og sýnt að ótrúleg samstaða ríkti. Sagði hann að starfshópurinn yrði að mæta þessari hugmyndafræði hins illa, fást við hana og sigra hana.

Michael Howard, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði eftir fundinn að það væri undir leiðtogum múslima komið að ná til ungmenna í þeirra samfélögum og koma í veg fyrir að útsendarar hins illa hefðu áhrif á þau.

Bresk stjórnvöld ætla að ræða við fleiri aðila til að reyna að ná eins víðtækri samvinnu og hægt er um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og rótum hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert