Blair: Ljóst að engan sakaði í sprengingunum í Lundúnum

Lögregla hefur girt af stórt svæði umhverfis strætisvagn á Hackney …
Lögregla hefur girt af stórt svæði umhverfis strætisvagn á Hackney Road í Lundúnum. Talið er að virk sprengja kunni að vera í vagninum. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði á blaðamannafundi, sem hann hélt með John Howard, forsætisráðherra Ástralíu í Lundúnum í dag, að svo virtist sem engan hefði sakað í sprengingum í neðanjarðarlestum og strætisvagni í borginni í dag. Sagði hann ljóst, að sprengingunum hefði verið ætlað að hræða fólk og koma því úr jafnvægi.

Ian Blair, lögreglustjóri í Lundúnum, segir að lögregla hafi náð stjórn á ástandinu og staðan væri eins góð og hægt væri að búast við í ljósi þess að gerðar hafi verið fjórar tilraunir til að valda alvarlegum sprengingum en vísbendingar væru um að sprengjur hefðu ekki sprungið eins og tilræðismennirnir ætluðust til. Sprengjurnar í þremur lestum í dag hefðu orðið nánast samtímis. Sagðist hann vonast til að lífið í borginni geti á ný gengið sinn vanagang innan skamms. Áætlun neðanjarðarlesta og strætisvagna hefur raskast verulega vegna málsins.

Tony Blair gerði hlé á fyrirhugaðri dagskrá sinni í dag og ræddi við lögreglu og leyniþjónustumenn en segist nú ætla að halda dagskránni áfram þar sem frá var horfið.

Lögregla hefur girt af stórt svæði umhverfis strætisvagn á Hackney Road í Lundúnum en sprenging varð á efri hæð vagnsins fyrr í dag. Vagnstjórinn stöðvaði bílinn og fór upp á efri hæðina og sá að rúður höfðu brotnað. Engan sakaði. Vangaveltur eru um, að óttast sé að sprengja sé í vagningum og því fari lögregla að með gát.

Sérfræðingar í eiturefnabúningum hafa farið niður í þrjár brautarstöðvar í borginni þar sem sprengingar urðu um hádegisbil í dag. Að sögn lögreglu eru engin merki um að efnavopn hafi sprungið.

Sprengingarnar voru allar litlar og er leitt að því líkum að í einhverjum tilvikum hafi hvellhettur á gervisprengjum sprungið. Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur lögregla fundið tvær slíkar gervisprengjur.

Vopnaðir lögreglumenn fylgdu handjárnuðum manni í nágrenni Downingstrætis í Lundúnum en ekki er vitað hvort hann tengdist sprengingunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert